Innlent

Rannsókn á sölu Búnaðarbankans

Stefán Jón Hafstein, formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, vill að Alþingi láti fara fram opinbera rannsókn á sölu Búnaðarbankans á sínum tíma og skili þjóðinni skýrslu um málið. Enn fremur að þeir, sem nú ætla að selja Símann, geri grein fyrir þeirri forskrift sem Morgan Stanley fékk fyrir ráðgjöf sinni við söluna og birti tillögur fyrirtækisins um hvernig ætti að standa að einkavæðingunni. Stefán Jón segir þetta kröfu um að hreinsa andrúmsloftið, meðal annars í ljósi þess að tvær konur, Agnes Bragadóttir í Landssímamálinu og Jónína Benediktsdóttir í Kastljósi í gærkvöldi, endurómi sterkt það sem íslensk þjóðarsál er að hugsa. Fólk trúi ekki lengur að almannahagsmuna sé gætt og djúpstæð tortryggni í garð stjórnvalda hafi skotið rótum. Fréttastofa Stöðvar 2 og Bylgjunnar hefur leitað eftir því við forsætisráðuneytið að fá tillögur Morgan Stanley varðandi einkavæðingu Landssímans en fengið þau svör að það sé ekki hægt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×