Innlent

Ósammála um sameiningu

"Samfylkingin hefur mjög sterka áherslu á velferðarmál eins og hefur verið einkenni Vinstri-grænna," segir Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar. Hann segir jafnframt að slagkraftur flokkanna sameinaðra yrði mun meiri. "Það eru skýr rök og málefnalegar ástæður fyrir því að þetta eru tveir flokkar," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna. "Ég held að samstarfið gangi betur núna af því að flokkarnir eru fastir í sessi og sjálfsöruggir og getur það auðveldað þeim að eiga samstarf á málefnalegum grunni," segir Steingrímur. Össur segist í raun aðeins sjá eitt stórt mál sem sé alvarlegt ágreiningsefni flokkanna á milli, afstöðu þeirra til aðildar að Evrópusambandinu. Steingrímur J. er ósammála þessu. "Við erum ekki bara ósammála um Evrópumál heldur man ég ekki betur en að Samfylkingin hafi greitt atkvæði með Kárahnjúkavirkjun, ef ég á að nefna eitthvað fleira," segir Steingrímur. "Allt tal um sameiningu þessara flokka er ekki á dagskrá mér vitanlega. Að auki er ekki hljómgrunnur fyrir þessu meðal unga fólksins sem vill skerpa línur enn frekar í pólitíkinni. Það er ótímabært að vera með yfirlýsingar af þessu tagi. Samfylkingin ætti að klára að kjósa sinn formann fyrst," segir Steingrímur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×