Innlent

Vilja meira fé til samgöngumála

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að framkvæmdafé til samgöngumála í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu verði aukið frá því sem nú er. Þótt framlög til höfuðborgarsvæðisins hafi aukist talsvert að undanförnu sé brýn nauðsyn til að gera enn betur. Þetta kemur fram í bókun sem þeir lögðu fram á borgarstjórnarfundi í dag. Í bókuninni halda sjálfstæðismenn því fram að Reykjavíkurlistinn beri ábyrgð á þeim töfum sem hafi orðið við mikilvægustu úrbætur á samgöngum í Reykjavík og segja að framlög til samgöngumála í Reykjavík væru hærri ef R-listinn hefði hefði gætt hagsmuna Reykvíkinga í samgöngumálum. Sjálfstæðismenn segja enn fremur að í samgönguáætlun Alþingis sé ekki gert ráð fyrir bráðnauðsynlegri gerð mislægra gatnamóta Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Ástæðan sé sú að R-listinn hafi tvisvar tekið slík gatnamót af dagskrá þrátt fyrir skýran vilja samgönguyfirvalda til að ráðast í þá framkvæmd. Þá liggi ekki fyrir ákvörðun borgaryfirvalda um hvaða leið verði farin við lagningu Sundabrautar. Ákvörðun um það hafi sífellt dregist á langinn í höndum R-listans. Meðan svo sé geti borgaryfirvöld ekki vænst þess að fjármunum verði varið til verksins. Ávallt hafi legið fyrir að um sértæka fjármögnun yrði að ræða við lagningu Sundabrautar, sem gæti hafist á árunum 2007-2008, og hvetja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til þess að fjármögnun verði tryggð til að leggja Sundabrautina alla leið upp á Vesturlandsveg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×