Innlent

Fundað vegna þorskstofns

Þorskkvótinn verður ekki aukinn á næstunni. Sjávarútvegsráðherra segir ástand stofnsins lélegt. Fulltrúar sjávarútvegsnefndar Alþingis eiga á morgun fund með forstjóra Hafrannsóknarstofnunar vegna málsins. Samkvæmt nýlegri mælingu Hafrannsóknarstofnunarinnar lækkaði stofnvísitala þorsks um 16 prósent frá mælingu sem gerð var í fyrra. Svokallaðar lengdardreifingar þorsksins sýndu að árgangurinn 2004 væri mjög lélegur, árgangurinn 2003 frekar lélegur og árgangurinn 2001 mjög lélegur. Árni Mathiesen sjávarútvegsráðherra segist hafa viljað sjá betri útkomu en bendir á að mældir hafi verið fleiri árgangar en séu inni í veiðistofninum. Hins vegar staðfesti mælingin líka að árgangurinn 2001 sé mjög lítill og það þýði að kvótinn verði ekki aukinn alveg á næstunni. Of snemmt sé þó að segja til um hvort minnka þurfi kvótann á næsta ári en inn í það komi fleiri þættir. Magnús Þór Hafsteinsson, Frjálslynda flokknum, telur þetta slæmar fréttir af þorskinum og krefst neyðarfundar í sjávarútvegsnefnd Alþingis. Guðjón Hjörleifsson, formaður nefndarinnar, segir að ákveðið hafi verið að fulltrúar meirihlutans og minnihlutans í nefndinni fundi með Jóhanni Sigurjónssyni, forstjóra Hafrannsóknarstofnunarinnar, á morgun og verði farið yfir málið og staðan metin í framhaldi af því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×