Innlent

Ríkisstjórn í tíu ár

Í dag eru 10 ár liðin frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Einungis einu sinni áður hefur ríkisstjórnarsamstarf varað lengur, en það var viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem starfaði á árunum 1959 til 1971. Ef gert er ráð fyrir því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vari fram yfir næstu alþingiskosningar 2007 mun ríkisstjórnin hafa verið við völd fjórum mánuðum lengur en viðreisnarstjórnin, og þar með slá nýtt met. Fjörutíu þingsæti Í alþingiskosningunum 1995 hélt þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks minnsta mögulega meirihluta og baðst þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, lausnar og gekk til ríkisstjórnarsamstarfs við Framsóknarflokkinn. Nýja ríkisstjórnin hafði fjörutíu þingsæti á bak við sig en Framsóknarflokkurinn hafði unnið nokkurn sigur í kosningunum, bætt við sig tveimur þingsætum og náð 15 kjörnum þingmönnum. Fráfarandi ríkisstjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur, fengu 32 þingsæti samtals og hefði hver þingmaður því í raun verið í oddastöðu í öllum málum. Tíu ráðherrar Í ríkisstjórninni sem mynduð var fyrir tíu árum áttu sæti Davíð Oddsson, forsætisráðherra og ráðherra Hagstofu Íslands, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Páll Pétursson félagsmálaráðherra, Halldór Blöndal samgönguráðherra, Friðrik Sophusson fjármálaráðherra, Björn Bjarnason menntamálaráðherra, Þorsteinn Pálsson, sjávarútvegsráðherra og dóms- og kirkjumálaráðherra, Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, Guðmundur Bjarnason, landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra, og Finnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. 22 ráðherrar á tímabilinu Alls hafa tólf ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og tíu ráðherrar Framsóknarflokksins setið í ríkisstjórn á síðustu tíu árum. Auk þeirra sem að ofan eru talin eru það Árni M. Mathiesen, Geir H. Haarde, Sturla Böðvarsson, Sólveig Pétursdóttir, Tómas Ingi Olrich, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Sigríður Anna Þórðardóttir úr Sjálfstæðisflokki og Guðni Ágústsson, Siv Friðleifsdóttir, Jón Kristjánsson, Valgerður Sverrisdóttir og Árni Magnússon úr Framsóknarflokki. Þrír ráðherrar hafa setið í ríkisstjórn öll tíu árin; þeir Davíð, Halldór og Björn. Tvennar þingkosningar Ríkisstjórnin hefur farið í gegnum tvennar alþingiskosningar á áratugnum og haldið meirihluta í þeim báðum. Árið 1999 töpuðu flokkarnir samtals tveimur þingmönnum frá því í kosningunum fjórum árum áður og fengu því 38 þingmenn. Framsóknarflokkur fékk 12 þingmenn kjörna og Sjálfstæðisflokkur 26. Í kosningunum 2003 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn fjórum þingsætum en fjöldi framsóknarþingsæta stóð í stað. Ríkisstjórnarflokkarnir héldu því meirihluta með 34 þingmenn kjörna. Ekki í fyrsta sinn Samstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í ríkisstjórn nú er ekki hið fyrsta því flokkarnir hafa tvisvar áður starfað saman í tveggja flokka stjórn. Í fyrsta skipti var það á árunum 1932 til 1934 undir forsæti Ásgeirs Ásgeirssonar. Því næst störfuðu flokkarnir saman í ríkisstjórn á árunum 1950 til 1956. Formenn beggja flokkanna, Ólafur Thors og Hermann Jónasson, gegndu ráðherraembættum í ríkisstjórninni sem samanstóð af sex ráðherrum, þremur í hvorum flokki, og höfðu flokkarnir 36 þingsæti af 52.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×