Viðskipti innlent

Nýta sér forkaupsrétt í Mogganum

Hluthafar í Morgunblaðinu hafa skrifað sig fyrir þeim hlut sem var til sölu í blaðinu og er því útlit fyrir að ekkert verði af sölu hans til hóps tengdum Íslandsbanka. Það er hlutur Haraldar Sveinssonar sem er til sölu, en hann á 10 prósent í blaðinu. Hópur tengdur Íslandsbanka, þeir Einar og Benedikt Sveinssynir, bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir í Bakkavör og feðgarnir Hjalti Geir og Erlendur Hjaltason höfðu sýnt áhuga á þeim hlut. Sjö hluthafar í Morgunblaðinu, sem áttu forkaupsrétt, hafa skrifað sig fyrir þessum hlut. Þeir eiga hins vegar eftir að greiða fyrir hlutinn til að ganga endanlega frá málinu og rennur tíminn til þess út í næstu viku. Viðbúið er að verðmæti hlutarins hlaupi á hundruðum milljóna króna. Þrír hluthafar seldu í gær Árvakri, útgáfufélagi blaðsins, sinn hlut, en það voru Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem átti 1,07 prósent, og Guðrún og Anna Bjarnadætur sem áttu 0,53 prósent hvor. Þessi hlutur verður væntanlega boðinn öðrum hlutum til kaups síðar. Nú er því komin upp sú staða í eignarhaldi blaðsins að Útgáfufélagið Valtýr og fjölskyldur Kristins Björnssonar og Hallgríms Geirssonar eiga nú yfir 70 prósent í Morgunblaðinu. Það sem blasir við er að vinna að því að fá nýja hluthafa að blaðinu og sagði Hallgrímur Geirsson við fréttastofu Stöðvar 2 í dag að þetta ferli hefði berlega leitt í ljós að margir hefðu áhuga á að fjárfesta í Morgunblaðinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×