Innlent

Fyrir dóm vegna skattsvika

Fjórmenningarnir úr Landssímamálinu, sem dæmdir voru í Hæstarétti á dögunum, þurfa enn að mæta í dómsal. Þeir eru, ásamt fimmta manni ákærðir fyrir skattsvik upp á tugi milljóna króna og verður málið tekið fyrir í dag. Ríkislögreglustjóri ákærði þá Árna Þór Vigfússon, Kristján Ragnar og Sveinbjörn Kristjánssyni og Ragnar Orra Benediktsson fyrir að hafa ekki staðið skil á um 56 milljónum króna í virðisaukaskatt og staðgreiðslu opinberra gjalda. Málið var þingfest í febrúar og verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ákæran er í fimm liðum og beinast allir ákæruliðirnir að Kristjáni Ragnari, tveir að Árna Þór, einn að þeim Ragnari Orra og Sveinbirni og að auki einn að fyrrverandi framkvæmdastjóra Japis, Stefáni Hjörleifssyni. Meint brot eru vegna fyrirtækjanna Ísafoldarhússins, Japis, Kaffi Le, Lífsstíls og Planet Reykjavíkur, en öll hafa þau verið úrskurðuð gjaldþrota. Hluti skuldarinnar hefur verið greiddur en vegna erfiðrar fjárhagsstöðu fyrirtækjanna bárust greiðslurnar oft eftir gjalddaga. Samkvæmt íslenskum skattalögum telst brot fullframið sé ekki greitt á gjalddaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×