Innlent

Staðan góð en teikn á lofti

"Almennt má segja að niðurstaða í þetta sinn sé góð en þó verðum við að fara að stíga á bremsuna hvað framtíðina varðar," segir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi. Ársreikningar Reykjavíkurborgar voru kynntir í vikunni en í þeim kemur meðal annars fram að eignir samstæðunnar hafa vaxið um rúma fimmtán milljarða milli ára og eru alls tæplega 200 milljarðar króna. Stefán segist ánægður með það sem fram kemur og að það sé að mestu leyti í takt við væntingar. "Reksturinn er í þokkalegu jafnvægi en ef eitthvað er þá er reksturinn að heita kominn upp í þak. Það er þensla í þjóðfélaginu, mikið launaskrið og borgin þarf að borga kennurum og öðrum jafnvel og annars staðar. Kröfurnar hafa aukist og ég tel að við þurfum að vera á bremsunni hvað aukin verkefni varðar á næstunni." Oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, segir reikninginn sýna að áfram sé haldið á braut skuldasöfnunar. "Frá því að R-listinn tók við völdum hafa skuldirnar aukist að raungildi um þrettán milljónir á dag eða fjórtánfaldast síðustu ellefu árin. Hann sýnir svo ekki verður um villst að sparnaðar- og hagræðingaraðgerðir borgaryfirvalda hafa mistekist."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×