Innlent

Vilja hækka sektargreiðslur

Kröfur komu fram á Alþingi í gær um að sektir fyrir að leggja ólöglega í bílastæði fatlaðra yrðu stórhækkaðar. Sérmerkt stæði sem eingöngu eru ætluð fötluðum er að finna við opinberar byggingar, verslanir og önnur þjónustufyrirtæki. Í slík stæði mega eingöngu þeir leggja sem hafa sérstakt stæðiskort hreyfihamlaðra í bílum sínum. Fatlaðir hafa ítrekað kvartað undan því að ófatlaðir gangi á rétt þeirra og leggi í þessi stæði en við því liggur 2.500 króna sekt. Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, tók málið upp í fyrirspurnartíma. Hann telur að sektarfjárhæðir þurfi að stórhækka og segir að sektirnar verði að nema upphæðum sem fólki mui um. Tíu til tuttugu þúsund krónur séu ásættanlegar að hans mati. Fleiri tóku undir þessa kröfu. Bílastæðasektir eru á verksviði sveitarfélaga en ráðherra bauð að málið yrði tekið upp við endurskoðun umferðarlaga á haustþingi. Þá er verið að auka eftirlit af hálfu hins opinbera en það hefur hingað til ekki náð til stæða hjá einkaaðilum. Samgönguráðherra benti á lögreglan í Reykjavík og Bílastæðasjóður hefðu hafið samstarf um aukið eftirlit með stæðum fatlaðra á einkalóðum, eins og lóðum fyrir framan verslanir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×