Innlent

Tannlæknar styðja reykingabann

Tannlæknafélag Íslands hefur sent frá sér á ályktun þar sem félagið lýsir yfir fullum stuðningi við breytingar á lögum um tóbaksvarnir þar sem m.a. er kveðið á um reykingabann á veitinga- og skemmtistöðum. Telur Tannlæknafélagið að umrætt frumvarp sé í fullu samræmi við markmið félagsins að stuðla að bættri tannheilsu landsmanna. Enn fremur segir í ályktuninni að á málþingi Tannlæknafélagsins fyrir skömmu hafi verið fjallað um áhrif reykinga á tannheilsuna og úrræði tannlækna. Þar hafi komið fram að reykingar hafi skaðleg áhrif á tannheilsuna sem endurspeglist m.a. í tannholdssjúkdómum, tannlosi, slakari svörun við meðferðarúrræðum og jafnvel stórfelldum tannmissi. Þar hafi enn fremur komið fram að samkvæmt niðurstöðum rannsókna séu þeir sem verða fyrir óbeinum reykingum allt að 60 prósentum líklegri til að fá tannholdsjúkdóma en þeir sem ekki verða fyrir óbeinum reykingum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×