Innlent

Hissa á viðkvæmni barnageðlækna

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra er hissa á því hversu viðkvæmir barnageðlæknar eru fyrir umræðu um þá miklu aukningu sem orðið hefur á notkun barna á ofvirknilyfjum. Barnageðlæknafélag Íslands sendi í gærkvöldi frá sér langa og nokkuð harðorða yfirlýsingu þar sem gagnrýni á lyfjanotkun er sögð byggð á fordómum og fáfræði. Þar er komið víða við en vinnubrögð heilbrigðisráðuneytisins í málefnum barna með geðraskanir eru einkum gagnrýnd. Þar segir til dæmis: „Upplýsingar um hvar skórinn kreppir og hvaða úrræði séu vænleg til árangurs hafa legið hjá ráðuneytinu í áraraðir...vinnulag heilbrigðisráðuneytisins hefur verið hægt og ómarkvisst." Jón Kristjánsson heilbirgðisráðherra segist hissa á því hvað barnageðlæknar séu viðkvæmir við umræðunni því hann hafi ekki haft neina ásakanir uppi um að lyf séu ekki nauðsynleg og ekki verið með ásakanir í garð þeirra. Hann vísi því einnig á bug að ekkert hafi verið gert í ráðuneytinu í geðheilbrigðismálum almennt en hann verði sem ráðherra þessara mála að horfa á þær tölur sem blasi við í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um þessi mál og grafast fyrir um það hverjar orsakirnar séu. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að notkun ofvirknilyfja hérlendis hefur meira en fjórfaldast á fjórum árum. Jón segir barnageðlækna bæði hafa haft og munu hafa aðgang að allri vinnu í málaflokknum. En er verið að blása þetta upp, búa til vandamál þar sem það er ekki? Jón segist ekki hafa gert það því hann hafi sagt það í umræðum á þingi að lyf væru nauðsynlegur þáttur í heilbrigðisþjónustunni og hann standi við það. Notkun þessarar lyfja hafi þó þróast með þeim hætti að hann geti ekki annað en látið skoða það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×