Viðskipti innlent

Félag Björgólfs fær farsímaleyfi

Fyrirtæki í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar hefur fengið farsímaleyfi í Póllandi. Fyrirtækinu Netia Mobile, sem Björgólfur Thor stýrir, og pólska símafyrirtækinu Netia var í gær úthlutað svokölluðu UMTS-leyfi í Póllandi, en það er fjórða leyfið sem veitt er fyrir þriðju kynslóð farsíma þar í landi. Búist er við að farsímanotkun Pólverja eigi eftir að aukast verulega. Núna eru um 60 prósent landsmanna skráð fyrir farsímum en gert er ráð fyrir að hlutfallið verði komið í 80 prósent í lok næsta árs, en það þýðir um 30 milljónir notenda. Netia Mobile mun síðar kynna áform sín um uppbyggingu fjarskiptakerfa. Fyrirtækið er þriðja símafyrirtækið þar sem Björgólfur Thor Björgólfsson er kjölfestufjárfestir í, en hann fer fyrir hópi fjárfesta í BTC-símafyrirtækinu í Búlgaríu og CRa í Tékklandi.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×