Innlent

Ríkið auki skatta með olíugjaldi

Ríkið er að auka skattheimtu með nýju olíugjaldi fyrsta júlí, segir Kristján L. Möller alþingismaður. Hann segir virðisaukaskatt og fleira leggjast ofan á eldsneytisverð, gjöld sem ekki renna til vegamála. Kristján segir allan hvata fyrir fólk að fá sér sparneytna og umhverfisvæna dísilbíla horfinn. 1. júlí verður þungaskattur afnuminn en sérstakt olíugjald lagt á í staðinn. Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, segist hafa verið á móti þessari leið og flokkur hans hafi lagt fram breytingatillögur um fleri og lægri gjaldflokka þannig að hvati skapaðist fyrir fólk að fá sér dísilbíla. Dísilbílar séu í dag dýrari en bensínbílar í innkaupum og nú bætist við dýrara eldsneyti, þannig hvatinn er ekki til staðar. Kristján segir að algjör viðsnúningur hafi orðið miðað við frumvarpið sem lagt hafi verið fram. Þá hafi hráolíuverði átt að vera lægra en þróun á heimsmarkaði hafi leitt til þess að dísilolían verði dýrari og því lendi Íslendingar í vandræðum á þeim tíma sem þeir séu að breyta kerfinu. Kristján segist óttast það að það hagræði sem ætlunin var að fá með breytingunum verði ekki að veruleika. Hann sé hissa á því þegar hann hitti leigubílstjóra sem eiga dísílbíla en þurfi að endurnýja bílana sína, en þeir ætli að kaupa sér bensínbíla. Kristján segir í raun ekki vitað hvað geri megi ráð fyrir miklum tekjum af þessu því ekki sé ljóst hver olíusalan verði. Í samgönguáætlun sé gert ráð fyrir 74 milljónum lítra, fjárlögin geri ráð fyrir 80 milljónum en Vegagerðin 91 milljón lítra. Kristján segir að svo virðist sem ríkið sé að auka tekjur sínar af samgöngum sem ekki renni síðan til samgöngumála því til viðbótar við hátt olíuverð bætist virðisaukaskattur á lítraverð og síðan á þjónustu olíufélaganna og því sér verið að auka skattheimtu. Hann bendir á ríkisstjórnin hafi hækkað skattaálögur á bifreiðaaeigendur og það sem verra sé sé að skattarnir renni ekki til samgöngumála eða vegagerðar. Síðustu tölur sem hann hafi frá FÍB, sem séu um tveggja ára gamlar, sýni að tekjur ríkissjóðs af umferðinni hafi verið 32 milljarðar króna en tæplega helmingur af því renni til samgöngumála. Í morgun komu þær fregnir frá efnahags- og viðskiptanefnd að sérstakt bensíngjald sem rennur til vegamála verði hækkað um 7 prósent 1. júlí en á móti yrði almennt bensíngjald lækkað þannig að vonir standi til að bensínverð breytist ekki. Í flestum Evrópulöndum, að minnsta kosti, er dísilolía ódýrari en bensín svo fólk velji þann kost frekar en annað er uppi á teningnum hér. Kristján bendir á að fjármálaráðherra hafi notað þennan mun í Evrópu sem rök í málflutningi sínum í tengslum við flutning olíugjaldsfrumvarpsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×