Innlent

Atkvæði greidd í dag

Meirihluti Alþingis samþykkti nú fyrir hádegi að þrjú lagafrumvörp viðskiptaráðherra um breytingar á samkeppnislögum gengju til þriðju umræðu með þeim breytingum sem meirihluti nefndarinnar lagði til. Greidd verða atkvæði um lögin eftir hádegi í dag. Margir þingmenn stjórnarandstöðu gerðu grein fyrir atkvæði sínu og sögðu um hefndaraðgerðir stjórnvalda gegn samkeppnisyfirvöldum að ræða sem myndi veikja lögin og auka áhrif stjórnmálaflokka. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra segir stjórnarandstöðuna leggjast afar lágt í málflutningi sínum. Stjórnsýslubreytingar og niðurlagning stofnana eru aðferð stjórnarflokkanna til að refsa fyrir óþekkt og treysta pólitísk áhrif, að mati stjórnarandstöðunnar, sem lét andúð sína óspart í ljós í atkvæðagreiðslu um breytingar á samkeppnislögum.  Lúðvík Bergvinsson Samfylkingu sagði ríkisstjórnina hafa haldið samkeppnismálum í fjársvelti. Fram hafi komið að 100 milljónir hafi vantað árlega til þess eins að ljúka þeim erindum sem samkeppnisyfirvöldum berist. Lúðvík sagði Samkeppnisstofnun hafa gert það sem hún mátti alls ekki gera að mati ríkisstjórinnar: Snert hina ósnertanlegu. „Hún snerti þá sem hingað til hafa aldrei þurft að bera á ábyrgð á gjörðum sínum. Hún snerti þá sem hingað til hafa setið á fremsta bekk á landsfundum stjórnarflokkanna og rakað saman fé í þeirra þágu,“ sagði Lúðvík. Jóhanna Sigurðardóttir Samfylkingu sagði að með lagasetningunni endurspeglaðist valdhrokinn og ráðherraræðið sem sést hafi þegar Þjóðhagsstofnun var lögð niður og Mannréttindaskrifstofa Íslands höfð í fjársvelti því stofnanirnar hafi ekki þóknast valdhöfum.  Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra sagði að í umræðunni hafi öllu verið snúið haus. Hún vísar m.a. í það að hún hafi hafnað beiðni Verslunarráðsins um að hafa afskipti af olíumálinu á sínum tíma og rannsaka aðgerðir Samkeppnisstofnunar eins og farið hafi verið fram á. „Ég segi eins og oft á við: Sá hlær best sem síðst hlær,“ sagði Valgerður. Þess má geta að breytingartillaga Lúðvíks, um að bætt yrði við klásúlu um að forstjóri Samkeppnisstofnunar gæti haldið starfi sínu, var felld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×