Innlent

Sérframboð leiði til falls

Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðingur segir að bjóði flokkarnir í R-listasamstarfinu fram sér falli að líkindum meirihlutinn. Borgarfulltrúi R-listans sagði um helgina að það væru helmingslíkur á því að Framsóknarflokkurinn byði fram sér í næstu borgarstjórnarkosningum. Gunnar Helgi Kristinsson telur að R-listinn tapi borginni renni samstarf flokkanna, sem að honum stendur, út í sandinn. Þá myndu flokkarnir líklega telja sig skuldbundna til að taka saman aftur. Gunnar Helgi segir R-listann hafa verið stofnaðan gegn valdaeinokun Sjálfstæðimanna í borginni, honum hafi tekist að fella flokkinn og því starfi sé í raun lokið. Anna Kristinsdóttir, framsóknarmaður og borgarfulltrúi R-listans, sagðist í Sunnudagsþættinum á Skjá einum í gær telja helmingslíkur á því að Framsóknarflokkurinn byði fram undir eigin merkjum í komandi sveitarstjórnarkosningum. Viðræður eru hafnar um endurnýjun samstarfsins. Anna sagði að ekki kæmi annað til greina en að jafnræði yrði með flokkunum sem standa að R-listanum varðandi fjölda borgarfulltrúa. Grímur Atlason, Vinstri-grænum, lýsti sömu skoðun í þættinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×