Innlent

Uppröðun listans helsta hindrunin

Skoðanamunur á því hvernig eigi að standa að vali fulltrúa á framboðslista R-listans fyrir borgarstjórnarkosningar að ári eru helsti þröskuldurinn í vegi þess að flokkarnir sem að listanum standa nái saman. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa engar alvarlegar deilur komið upp í málefnaumræðum flokkanna hingað til og virðist ljóst að ef upp úr samstarfi flokkanna slitnar, þá verður það vegna ágreinings um skipan listans. Samfylkingin hefur lagt fram tillögu í viðræðunum þess efnis að listinn verði valinn í opnu prófkjöri, þannig verði þess best gætt að borgabúar komi beint að því að velja fulltrúa sína í borgarstjórn. Fulltrúar Framsóknarflokks og Vinstri grænna hafa ekki hafnað þessum hugmyndum en flokkarnir eru þó efins um að galopið prófkjör sé rétta leiðin. Þeir vilja halda í jafnræðisreglu flokkanna sem stuðst hefur verið við frá upphafi; hver flokkur eigi minnst tvö örugg sæti á listanum en flokkunum eigi að vera í sjálfsvald sett hvernig þeir velja fulltrúa sína á listann. Jafnræðisreglan gengur reyndar út frá því að óháðir eigi tvö sæti á listanum en eftir því sem næst verður komist er vilji til þess innan raða Vinstri grænna og Framsóknarmanna að endurskoða þann þátt í skipan listans. Það byggist fyrst og fremst á því að upphaflega voru þessi sæti tekin frá vegna Ingibjargar Sólrúnar en nú sé ekki lengur sterkum einstaklingi sem henni til að dreifa í röðum óháðra. Val á borgarstjóraefni er einnig nokkuð sem flokkarnir eiga eftir að koma sér saman um og meðal annars hafa Vinstri grænir viðrað þá hugmynd að flokkurinn sem fær borgarstjórasætið í sinn hlut, fái aðeins tvö sæti á listanum, hinir flokkarnir fái þrjú hvor. Ólíklegt er þó talið að þessi hugmynd hljóti brautargengi, sérstaklega ekki innan Samfylkingarinnar, því ýmsir innan hennar vilja að flokkurinn njóti betur þeirrar sterku stöðu sem flokkurinn hefur í höfuðborginni eftir síðustu Alþingiskosningar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×