Innlent

Hækka niðurgreiðslur með börnum

Gunnar Einarsson hefur tekið við starfi bæjarstjóra í Garðabæ. Ásdís Halla Bragadóttir, fráfarandi bæjarstjóri og forstjóri BYKO, afhenti Gunnari lyklana við hátíðlega athöfn á bæjarstjórnarskrifstofunum klukkan ellefu í morgun. Fyrsta verk nýs bæjarstjóra var að tilkynna nýja samþykkt bæjarráðs sem felur í sér mikla hækkun niðurgreiðslna með börnum hjá dagforeldrum og á einkareknum leikskólum. Breytingarnar eru ferns konar og taka gilidi 1. september í haust. Niðurgreiðslur með börnum hjá dagforeldrum verða hækkaðar úr 11 þúsund krónum í 40 þúsind krónur á mánuði frá tólf mánaða aldri. Niðurgreiðslur með börnum í einkareknum leikskólum verða hækkaðar úr 33 þúsund krónum í rúmar 38 þúsund krónur og hefjast greiðslur þegar barn verður eins árs í stað eins og hálfs árs áður. Einnig verður tekinn upp systkinaafsláttur á milli þjónustustiga og greiðslur með börnum í einkareknum skólum verða hækkaðar um eitt hundrað þúsund krónur, úr 416 þúsund krónum í 516 þúsund. Gunnar Einarsson, nýr bæjarstjóri, segir að hugsunin með þessu sé fyrst og fremst sú að gæta jafnræðis hjá þjónstufomum. Verið sé að styrkja dagforeldrakerfið þannig að foreldrar sem þurfi og vilji vera með börn hjá dagforeldrum eigi möguleika að greiða svipaða upphæð og þeir greiði í leikskólum. En hvað kostar þetta bæjarfélagið mikið? Gunnar segir að heildarkostnaðurinn sé í kringum 30 milljónir á ársgrundvelli. Hann vilji frekar horfa á málið út frá ávinningnum en þarna sé verið að ýta undir meira valfrelsi hjá foreldrum og jafnræði og þá sé betur komið til móts við þarfir hvers barns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×