Innlent

Segja Alfreð hóta

Ummæli Alfreðs Þorsteinssonar í Fréttablaðinu í gær um mögulegan meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Orkuveitu Reykjavíkur hafa vakið hörð viðbrögð hjá Vinstri-grænum. Stjórn Vinstri-grænna í Reykjavík kom saman til fundar í gær og harmaði afstöðu Alfreðs til málsins. Tryggvi Friðjónsson, fulltrúi Vinstri-grænna í stjórn Orkuveitunnar, hefur sagt að hann og sinn flokkur leggist gegn orkusölu til stóriðju í gegnum Orkuveitu Reykjavíkur. Í Fréttablaðinu í gær var haft eftir honum að hann hygðist greiða atkvæði gegn slíkri tillögu innan stjórnarinnar. Í ályktuninni segja Vinstri-grænir að Alfreð hafi með orðum sínum hótað að slíta meirihlutasamstarfinu í Reykjavík og í ljósi þess að nú fari fram viðræður um áframhald R-lista-samstarfsins, hafi Alfreð mögulega spillt fyrir viðræðunum og sett framtíð R-listans í uppnám.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×