Viðskipti innlent

Trúnaðarmál segir Bjarni

Það er trúnaðarmál hvernig stjórnendur Íslandsbanka fjármagna viðskipti sín með bréf í bankanum, segir forstjóri bankans. Bjarni Ármannsson segir að stjórnendum beri engin skylda til að upplýsa um fjármögnun viðskiptanna, hvorki nú né síðar, þar sem bankinn reiði ekki fram neina tryggingarvernd.  Í sumum tilfellum þegar stjórnendur kaupa hlutabréf í fjármálafyrirtækjum verja þau stjórnendur tapi með því að skuldbinda sig til að kaupa bréfin aftur eftir ákveðinn tíma, vilji stjórnendur þá selja, á sama verði og þeir keyptu bréfin á að viðbættum vöxtum. Þá er hagnaðurinn líka tekjuskattskyldur enda litið svo á að viðskiptin séu hlunnindi og í raun hluti af launakjörum. Bjarni segir að viðskiptin væru tilkynningaskyld ef þau nytu slíkrar verndar. Eins og málum sé hins vegar háttað séu þau trúnaðarmál og ekkert undarlegt við það að ekki sé skýrt frá því hvernig þau séu fjármögnuð. Bankinn er almenningshlutafélag með um 100 þúsund viðskiptavini.. Þrátt fyrir það segir Bjarni að upplýsingarnar verði ekki gerðar opinberar, hvorki í ársreikningi né annars staðar. Hann geti ekki rætt þessi viðskipti né önnur hvað þessi mál áhræri, þ.e. hvaða kjör séu í boði. Spurður hvort lánaviðskiptin hafi verið borin undir stjórn bankans segist Bjarni ekki geta rætt það.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×