
Innlent
Dæmd fyrir að stinga sambýlismann

Rúmlega þrítug kona var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmd í fimmtán mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði óskilorðsbundið, fyrir að stinga sambýlismann sinn í bakið þannig að hnífurinn gekk inn í lunga. Konan var ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í nóvember í fyrra veist að sambýlismanni sínum með hnífi á heimili sínu og stungið hann í bakið við hægra herðablað. Maðurinn hlaut stungusár á brjóstkassa sem leiddi til þess að lunga hans féll saman. Konan viðkenndi fyrir dómi að hafa stungið hann í reiðiskasti en hún dró síðar úr játningunni með því að segja að hún hafi með þessu verið að hræða hann og að þetta hafi gerst í ógáti. Héraðsdómur taldi hins vegar sannað að ákærða hafi vísvitandi stungið manninn í bakið og valdið honum áverka. Konan hefur áður hlotið átta refsidóma, meðal annars fyrir tékkalagabrot, skjalafals og þjófnað. Héraðsdómur taldi hæfilega refsingu 15 mánaða fangelsi. Í dómsniðurstöðu segir að ákærða og sá sem fyrir árásinni varð búi enn saman og að hann hefði gert verulega á hlut hennar áður en atburðurinn gerðist. Þótti því rétt að fresta framkæmd 12 mánaða af refsingunni og fellur sá hluti niður að þremur árum liðnum haldi hún almennt skilorði.