Viðskipti innlent

Nýtt lyf á markað í Þýskalandi

Actavis hefur sett nýtt samheitalyf á markað í Þýskalandi í gegnum dótturfélag sitt, Medis. Er það blóðþrýstingslyfið Benazepril Hydrochlorothiazide sem framleitt er í töfluformi. Í fyrstu atrennu voru framleiddar 10 milljónir taflna. Er búist við að lyfið verði mikilvæg viðbót við lyfjasafn Actavis þó að ekki sé reiknað með að það verði meðal tíu mest seldu lyfja félagsins. Benazepril HCT er aðallega notað við meðferð á háum blóðþrýstingi. Lyfið kom fyrst á markað í Evrópu árið 1992. Einkaleyfið í Þýskalandi rann út 29. júní síðastliðinn en Þýskaland er mikilvægasti markaður fyrir lyfið. Þróun lyfsins, sem hófst fyrir fimm árum, fór fram hjá Actavis á Íslandi og frásogsrannsóknir fóru fram í Kanada. Lyfið er framleitt í verksmiðju Actavis á Íslandi en dótturfélag félagsins, Medis, mun sjá um sölu þess til þriðja aðila sem munu markaðssetja lyfið undir eigin vörumerkjum. Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, framkvæmdastjóri alþjóðlegrar sölu til þriðja aðila hjá Actavis, segir undirbúninginn að markaðssetningu lyfsins hafa tekið langan tíma. „Við erum nú að setja enn eitt blóðþrýstingslyfið á markað en það tilheyrir flokki ACE-hemla, flokki lyfja sem Actavis hefur lagt mikla áherslu á og telur lyf eins og Ramipril, Lisinopril og Enalapril. Ekki er um að ræða jafn umfangsmikla markaðssetningu og á fyrrnefndum lyfjum en lyfið er okkur mjög mikilvægt þar sem það á ekki í eins harðri samkeppni og von er um stærri markaðshlutdeild,“ segir Guðbjörg.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×