Viðskipti innlent

Íbúðalánsjóður - nýr ríkisbanki?

Tryggvi Þór Herbertsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskólans, segir að alþjóðastofnanir hljóti að spyrja sig af hverju ríkisstofnun sé að fjármagna útlán hjá viðskiptabönkunum. Hann bendir jafnframt á að stjórnvöld beri ábyrgð á því ef Íbúðalánasjóður er að fjármagna neyslulán. Samtök atvinnulífsins telja að kominn sé fram á sjónarsviðið nýr ríkisbanki. Samtök atvinnulífsins segja einnig að allar skuldbindingar Íbúðalánasjóðs séu með ríkisábyrgð og sjóðurinn hafi það hlutverk að lána til húsnæðiskaupa. Þá hljóti það að ganga í berhögg við einkavæðingarstefnu stjórnvalda að kominn sé fram á sjónarsviðið nýr ríkisbanki sem afli fjár með útboðum og endurláni með ríkisábyrgð til lánastofnana. Tryggvi Þór Herbertsson segir að spurningin um Íbúðalánasjóð sé fyrst og fremst pólitísk og stjórnvöld verði að svara því hver verði framtíð sjóðsins. Engin pólitísk ákvörðun hefur verið tekin um að gera Íbúðalánasjóð að heildsölubanka, engin umræða hefur farið fram um það í samfélaginu, þótt hann sé að þróast í þessa átt. Tryggvi Þór hefur varað við stöðu Íbúðalánasjóðs. Hann hefur lagt til að Íbúðalánasjóður verði seldur bönkunum og samið við þá um þau félagslegu markmið sem stjórnvöld vilji setja á oddinn. Núverandi ástand án skýrra pólitískra markmiða gangi hinsvegar ekki. Hann segir einnig að Íbúðalánsjóður sé orðinn að heildsölubanka fyrir tvo viðskiptabanka og að verið sé að ríkistryggja enn stærri hluta af lánamarkaðnum heldur en áður og hann segir það vera alvarlegt mál. Hann segir eðlilegt að spyrja sig að því hvað hafi orðið um einkavæðinguna ef ríkisfyrirtæki sjá um fjármögnun.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×