Viðskipti innlent

500 milljarða fyrirtækjakaup

Á síðustu átján mánuðum hafa Íslendingar keypt stærri fyrirtæki erlendis fyrir um 450 milljarða og gera má ráð fyrir því að erlend fyrirtækjakaup nemi mun hærri upphæð ef óskráð fyrirtæki eru talin með. Þetta kemur fram í úttekt Markaðarins á erlendum fyrirtækjakaupum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Helstu ástæður útrásarinnar eru samkvæmt úttektinni mikið framboð af fjármagni á Íslandi undanfarin misseri. Bæði fyrirtæki og einstaklingar hafa leitað út fyrir landsteinana til að ávaxta fé sitt. Þá hefur hátt gengi krónunnar lækkað verð erlendra fyrirtækja með sama hætti og það lækkar verð á erlendum neysluvörum. Mikið af útrásinni er enn fremur fjármagnað með lánsfé og hafa bankarnir spilað stórt hlutverk með lánveitingum, ráðgjöf og beinni þátttöku. Undanfarin misseri hafa öll stærstu fyrirtækin í Kauphöll Íslands sótt aukið fé til hluthafa með stórum hlutafjárútboðum til að fjárfesta í erlendum fyrirtækjum og því vaknar sú spurning hvort þanþol þeirra til skuldsetninga sé komið upp að efri mörkum. "Ég held að þessi bylgja sem nú á sér stað haldi ekki áfram af sama krafti og undanfarið," segir Hannes G. Sigurðsson, forstöðumaður hagdeildar Samtaka atvinnulífsins, um útrás íslenskra fyrirtækja. "Þessi fyrirtæki eru þó enn flest það lítil á alþjóðlegan mælikvarða að endimörk vaxtar þeirra eru ekki fyrirsjáanleg." Hannes telur ekki aðeins hagrænar ástæður fyrir útrásinni. "Ég tel að þetta byggist að hluta til á þeim einstaklingum sem hafa verið í fararbroddi í þessum útrásum," segir Hannes, og tekur lyfjaiðnaðinn, tískuverslanir og stoðtækni sem dæmi. "Þeir hafa fundið sér ákveðin tækifæri á afmörkuðum sviðum á erlendum mörkuðum sem eiga sér engar sérstakar rætur í íslensku efnahagslífi."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×