Sport

Endalaus óheppni Helga Jónasar

Helgi Jónas Guðfinnsson er einn allra besti leikstjórnandi á Íslandi en undanfarin ár hafa þrálát bakmeiðsli gert honum lífið leitt og því hefur hann ekki geta spilað að fullu með liði sínu. Fréttablaðið greindi frá því fyrir skömmu að Helgi væri á góðri leið með að ná þokkalegri heilsu í fyrsta sinn í langan tíma og hygðist leika með Grindvíkingum af fullum krafti í úrvalsdeildinni næsta vetur, en sumarið byrjaði ekki gæfulega fyrir hann. "Ég held ég hafi verið búinn að mæta á tvær æfingar þegar ég lenti í því að handarbrotna þegar ég var að skutla mér á eftir bolta. Ég fann nú ekkert fyrir þessu fyrst, en skömmu síðar fann ég að ekki var allt með felldu og við skoðun kom í ljós að ég var brotinn á baugfingursbeininu á handarbakinu á skothendinni. Þetta hefur engu að síður gróið mjög vel og ég er kominn úr gipsinu núna. Ég má ekki byrja að spila strax og verð að gefa þessu nokkrar vikur enn til að jafna sig, en úr því að þetta gerist svona yfir sumarið, er maður ekkert að svekkja sig allt of mikið yfir þessu," sagði Helgi sem sagðist hafa óttast að þurfa að vera mun lengur frá vegna meiðslanna en raun bar vitni. "Ég hugsaði bara að það ætti ekki af manni að ganga í þessu meiðslaveseni," sagði Helgi hlæjandi, en sér fram á að verða kominn á fullt á æfingum með Grindvíkingum fljótlega. Hann getur þó ekki verið með liði sínu á Bílavíkurmótinu sem hófst í gærkvöld, en það er æfingamót þar sem Suðurnesjaliðin þrjú, Grindavík, Njarðvík og Keflavík, ásamt Fjölni leiða saman hesta sína.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×