Viðskipti innlent

Aðeins 3 konur á meðal 100 efstu

Í hópi eitt hundrað forstjóra íslenskra fyrirtækja, sem hafa yfir eina milljón króna í laun á mánuði, eru aðeins þrjár konur. Konur eru lægra metnar til launa og það hefur ekkert breyst, segir hagfræðingur ASÍ. Laun forstjóranna eru allt frá tuttugu milljónum króna á mánuði og niður úr. Konur virðast ekki eiga upp á pallborðið miðað við lista yfir forstjórana í tímaritinu Frjálsri verslun. Ofurlaunin fara hækkandi ár frá ári og munurinn milli hæstu og lægstu launa breikkar að sama skapi. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, hagfræðingur hjá ASÍ, segir óásættanlegt að launamunurinn sé tífaldur og allt upp í sextíufaldur hjá sama fyrirtæki. Hún segir líka umhugsunarefni hvað arðsemiskrafa slíkra fyrirtækja sé há. Afleiðingarnar birtist í því að sífellt stærri hópi fólks sé ýtt út af vinnumarkaði vegna skertrar starfsorku þar sem fyrirtækin segist ekki hafa efni á að halda því inni. Sigríður segist því hafa áhyggjur af vaxandi misskiptingu í samfélaginu. Samhliða því að fyrirtækin telji sig geta greitt ofurlaun séu þau að ýta fólki út af vinnumarkaði og þráast við að semja um betri launakjör fyrir almenna starfsmenn. Sigríður segir að í hópi forstjóranna séu alltaf sömu tvær til þrjár konurnar í hópi þeirra eitt hundrað efstu. Og þær séu langt frá því að vera hæstar. Konur séu lægra metnar til launa og það sé ekkert að breytast. Hjá fjármálafyrirtækjunum séu konur ofar á blaði en þó aldrei í hópi þeirra efstu. Það megi segja að konur taki ekki þátt í því að hluti þjóðarinnar sé að verða miklu ríkari, nema sem eiginkonur eða dætur manna sem eru sterkir í viðskiptalífinu. 





Fleiri fréttir

Sjá meira


×