Sport

Aldrei æft eins vel saman

Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í íslenska körfuboltalandsliðinu mæta Dönum í Keflavík í dag klukkan 14.00 í mikilvægasta leik síðari ára en hann getur haft úrslitaáhrif um hvaða lið vinnur riðilinn og fær í kjölfarið möguleika á að vinna sér sæti meðal A-þjóða. "Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik eins og allir í hópnum. Við erum búnir að æfa vel í allt sumar og erum nýkomnir úr vel heppnuðum æfingaferðum til Hollands og Kína. Við höfum aldrei æft svona vel og lengi saman eins og í sumar, þannig að ég trúi ekki öðru en að menn verði vel stemmdir í þennan leik," sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við Fréttablaðið í gær, en íslenska liðið er sem stendur í öðru sæti riðils síns og þurfa helst að vinna Dani með yfir tíu stiga mun til að hafa betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Sigur á Dönum eykur möguleika liðsins á að ná takmarki sínu um að komast í A deildina evrópsku, eða upp um einn styrkleikaflokk. Framundan er síðan leikur gegn Rúmenum á útivelli um næstu helgi en öll þessi þrjú lið eiga möguleika á að tryggja sér sigur í riðlinum. "Danska liðið er með hávaxna og sterka leikmenn sem eru erfiðir við að eiga og svo er bakvörðurinn Christian Drejer sem spilar með Barcelona líka mjög góður. Við erum með Friðrik og Hlyn Bærings undir körfunni og ég held að þeir nái alveg að halda þessum stóru mönnum í skefjum. Við áttum að vinna leikinn í Danmörku og erum því staðráðnir í því að bæta fyrir það með því að taka þá núna. Við höfum fulla trú á því að við getum það," sagði Jón Arnór sem spilar í dag sinn fyrsta og eina leik á Íslandi á þessu ári. Jón Arnór mun spila með ítalska liðinu Pompei Napoli í vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×