Reykjavíkurborg hefur gert samstarfssamning við Íslandsbanka, KB banka, Landsbankann og fasteignafélagið Þyrpingu vegna alþjóðlegrar hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Vatnsmýrarinnar. Hefur verið ákveðið að bankarnir og Þyrping leggi til 21 milljón króna í hugmyndasamkeppni um skipulag svæðisins. Tillagan um hugmyndasamkeppni um heildarskipulag Vatnsmýrar var samþykkt á fundi borgarráðs í gær en áformað er að samkeppnin hefjist í nóvember næstkomandi. Mikil áhersla er lögð á að almenningur og hagsmunahópar leggi fram hugmyndir og tillögur um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar.