Sport

Betri laun í Keflavík

Í dag kemur til landsins Bandaríkjamaðurinn Jason Kalsow en hann er búinn að semja við Íslandsmeistaralið Keflavík í körfubolta. Kalsow var eftirsóttur leikmaður og Keflavík hafði betur í baráttunni við lið frá Þýskalandi og Danmörku um þjónustu hans. Það sem meira er greiðir Keflavík betur en lið frá þessum löndum, að því er Kalsow segir í viðtali við bandaríska blaðið Northwest Herald."Ég fékk betri samning í Keflavík og liðið er búið að vinna deildina tvö ár í röð," sagði Kalsow aðspurður um af hverju hann valdi Keflavík. Þessi ummæli Kalsows hljóta að vekja verulega athygli enda hefur hingað til verið mikið mun betur greitt í Þýskalandi og Danmörku en hér á landi. Þar að auki er launaþakið á Íslandi 500 þúsund krónur en góður maður í Þýskalandi hefur ríflega þau laun. Fréttablaðið hafði samband við Birgi Má Bragason, formann körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, og spurði hann að því hvernig Keflvíkingum tækist að slá við liðum frá Evrópu undir litla launaþakinu sem er við lýði hér á landi."Helvíti er verið að greiða lítið í Þýskalandi," sagði Birgir Már, sem greinilega var hissa á ummælum Kalsows. "Það er ekki hægt að segja að þetta sé dýr leikmaður en hann er með minni laun en Kanarnir sem voru hjá okkur í fyrra og aðeins betri laun en Makedóninn sem kemur líka til okkar. Það hjálpar okkur að fá ódýra Kana þar sem við erum í Evrópukeppni," sagði Birgir Már, sem var ófáanlegur til þess að gefa upp laun Kalsows en tók skýrt fram að Keflavík væri undir launaþakinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×