Viðskipti innlent

FL Group vill kaupa Sterling

FL Group hefur áhuga á að kaupa Sterling-flugfélagið af eignarhaldsfélaginu Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar. Ákveðið hefur verið að hefja viðræður. "Þessar þreifingar eru á algjöru frumstigi og óvíst til hvers þær leiða," sagði Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða, í gærkvöldi. Hann sagðist ekki vilja tjá sig frekar um gang mála á þessu stigi. Sterling keypti flugfélagið Mærsk og gekk sameiningin í gildi í gær. Þreifingar hafa verið á milli FL Group og Fons um kaupin, en reiknað er með að á aðra viku taki að ná niðurstöðu um hvort af þessum kaupum verður. Samkvæmt heimildum sjá forsvarsmenn FL Group möguleika á að nýta níutíu áfangastaði Sterling víðs vegar um Evrópu fyrir tengiflug yfir Atlantshafið. Með því myndi markaður félagsins stækka verulega. Sterling er auk þess með sölukerfi víða um Norðurlönd sem nýtast myndi Icelandair. Sterling var rekið með tapi í fyrra en samkvæmt heimildum hefur tekist að snúa rekstrinum á rétta braut og talið að enn megi gera betur. Forsvarsmenn FL Group hafa lýst mikilli trú á framtíð lággjaldaflugfélaga og meðal annars keypt hluti í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×