Rio ráðleggur ungu leikmönnunum

Varnarjaxlinn Rio Ferdinand hjá Manchester United hefur góð ráð handa ungu leikmönnunum hjá liðinu og telur sig vita hvað liðið þarf að gera til að ná árangri í Meistaradeildinni. "Evrópuleikirnir spilast nokkuð ólíkt þeim í ensku úrvalsdeildinni, því þeir spilast oft nokkuð hægt, en svo kemur yfirleitt miklu meiri hraði í leikinn síðasta hálftímann. Þessar hraðabreytingar eru nokkuð ólíkar því sem gengur og gerist á Englandi og eru í raun líkari landsleikjum, þannig að ungu leikmennirnir þurfa í raun bara meiri reynslu til að venjast þessu. Eftir því sem þeir fá fleiri leiki í reynslubankann, því betri eru þeir í stakk búnir til að takast á við átökin í Meistaradeildinni" sagði Ferdinand.