Viðskipti innlent

25% lækkun á krónunni

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að verðbólgan fari upp undir átta prósent árið 2007 og að gengi krónunnar muni lækka um allt að 25 prósent á næstu tveimur árum. Gert er ráð fyrir rúmlega sex prósenta hagvexti í ár, sem er mun meiri vöxtur en að meðaltali síðustu tíu árin, en spáð er að meðaltalið í OECD-ríkjunum í ár verði aðeins 2,6 prósenta hagvöxtur. Vöxtinn megi fyrst og fremst rekja til mikilla fjárfestinga, aukinnar einkaneyslu, drifinni áfram af auknum kaupmætti, háu gengi krónunnar, lágum vöxtum og mikillar hækkunar húsnæðisverðs. Merki ofþenslu megi sjá víða, til dæmis verðbólguna sem nú mælist 4,8 prósent og á eftir að aukast á næsta ári og fara upp undir átta prósent á þarnæsta ári. Viðskiptahallinn aukist líka hratt og stefni í 13 prósent á þessu ári og enn meiri á þarnæsta ári en það þrýsti á lækkun krónunnar sem að líkindum muni lækka um allt að 25 prósent á næstu tveimur árum. Því séu líkur á skammvinnu samsdráttarskeiði innan tveggja ára. Sviptingar verði á mörgum sviðum árið 2007, með fjórðungs samdrætti í fjárfestingum, og samdrætti í kaupmætti og útgjöldum heimilanna. En samdráttarskeiðið verði stutt, meðal annars vegna vaxtar í útflutningi í kjölfar lækkunar krónunnar, ásamt stórauknum útlfutningi á áli. Árið 2008 fari svo aftur að stefna upp á við með 2,4 prósenta hagvexti, sem hækki upp í 3,4 prósent árið eftir, og er þá miðað við að verðbólga verði komin niður í 2,5 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×