Sport

Hughes fékk óblíðar móttökur

Larry Hughes, fyrrum leikmaður Washington Wizards og núverandi leikmaður Cleveland Cavaliers, fékk óblíðar móttökur í gærkvöldi  þegar hann lék sinn fyrsta leik með nýja liðinu sínu í MCI Center í Washington. Leikurinn var undirbúningsleikur og lykilmenn liðanna spiluðu ekki meira en 20-25 mínútur hver, en minni spámenn liðanna fengu mikið að spreyta sig til að reyna að sanna sig fyrir tímabilið. Cleveland vann nokkuð öruggan 116-94 sigur í leiknum, þrátt fyrir að lenda á kafla 15 stigum undir. Stór hluti þeirra rúmlega 12 þúsund áhorfenda sem mættu á leikinn sendu Larry Hughes tóninn í hvert skipti sem hann snerti boltann í leiknum og svo mikið bauluðu áhorfendurnir að Gilbert Arenas hjá Washington þótti það fara yfir strikið. "Larry gerði það sem allir atvinnumenn gera og hugsaði um hvað væri sér fyrir bestu. Þetta eru viðskipti og ekkert annað og það þýðir ekkert að bera kala til hans. Larry er enn einn af mínum bestu vinum í deildinni þó hann sé farinn til Cleveland," sagði Arenas, félaga sínum til varnar. Awvee Storey var stigahæstur í liði Washington í leiknum með 14 stig, en LeBron James og Drew Gooden skoruðu báðir 16 stig í liði Cleveland, sem búist er við að verði mjög sterkt í vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×