Það verður sannkallaður stórleikur í beinni á NBA TV í nótt, þar sem Steve Nash og félagar í Phoenix Suns taka á móti Austurdeildarmeisturum Detroit Pistons. Phoenix hefur gengið betur án Amare Stoudemire en menn þorðu að vona, en Detroit er á mikilli siglingu og er eina taplausa liðið í NBA.
Shawn Marion hefur tekið upp hanskann fyrir Amare Stoudemire og skorar að meiðaltali um 20 stig í leik og hirðir tæp 14 fráköst og verðmætasti leikmaður ársins í fyrra, Steve Nash skorar að meðaltali 18,5 stig og gefur 12,5 stoðsendingar.
Detroit liðið er með breyttar áherslur í sóknarleiknum síðan Flip Saunders tók við þjálfun þess og leikmenn eins og Richard Hamilton hafa notið góðs af því. Hamilton er með 25,5 stig að meðaltali í leik það sem af er og hefur verið sjóðandi heitur. Detroit hefur unnið báða útileiki sína til þessa.
Leikur kvöldsins hefst klukkan 3:30 eftir miðnætti í nótt, en hörðustu aðdáendur körfuboltans á Íslandi láta það nú væntanlega ekki á sig fá.