Sport

Memphis - LA Lakers í beinni

Kobe Bryant er stigahæsti leikmaður deildarinnar og skorar að meðaltali 31,8 stig í leik
Kobe Bryant er stigahæsti leikmaður deildarinnar og skorar að meðaltali 31,8 stig í leik NordicPhotos/GettyImages

Leikur Memphis Grizzlies og Los Angeles Lakers verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV í nótt og hefst hann um klukkan eitt eftir miðnætti. Í gær var sýndur leikur Sacramento og New York, þar sem Larry Brown og félagar unnu sinn fyrsta sigur í deildinni í vetur.

Kobe Bryant hefur farið mikinn í liði Lakers eins og búast mátti við, en liðið á erfitt uppdráttar ef hann nær sér ekki á strik eins og áhorfendur Sýnar sáu á föstudagskvöldið þegar Lakers tapaði fyrir Philadelphia.

Bryant skorar að meðaltali 31,8 stig í leik fyrir Lakers og óvíst er að hann eigi annan slakan leik eins og á föstudaginn, enda er þar á ferðinni stigahæsti leikmaðurinn í deildinni. Spænski framherjinn Pau Gasol hefur verið allt í öllu í liði Memphis í vetur og skorar að meðaltali 20 stig í leik. ´

Lið Lakers er búið að vera á keppnisferðalagi undanfarna daga, en leikurinn í kvöld er síðasti leikurinn á því ferðalagi. Liðið hefur tapað tveimur leikjum í röð.

Memphis hafði sömuleiðis tapað tveimur leikjum í röð áður en það mætti slöku liði Atlanta á laugardaginn, en þar hafði liðið nauman sigur með körfu Gasol um leið og leiktíminn rann út. Óvíst er hvort leikstjórnandinn Damon Stoudemire getur leikið með Memphis, en hann á við meiðsli að stríða. Memphis vann allar þrjár viðureignir liðanna á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×