Viðskipti innlent

Viðskiptahallinn slær met

Vöruskipti við útlönd voru óhagstæð upp á um ellefu milljarða króna í nóvember en þá var flutt inn fyrir tæpa 28 milljarða en út fyrir um sextán og hálfan milljarð. Halli á viðskiptum við útlönd fyrstu ellefu mánuði ársins er því kominn upp í 88,5 milljarða króna og hefur aldrei verið jafn mikill í krónum talið. Vöruskiptajöfnuðurinn var 58,3 milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður.

Ef fram heldur sem horfir mun viðskiptahalli við útlönd nema um hundrað milljörðum á árinu sem nú er næstum liðið. Það er næstum fjórum sinnum meira en gert er ráð fyrir í almennan rekstur Landspítala háskólasjúkrahúss í fjárlögum fyrir árið 2005. Ef innflutningur á þessu ári er borinn saman við síðasta ár munar mestu um stórfellda aukningu á innflutningi á eldsneyti sem aukist hefur um 40 af hundraði og flutningatæki en innflutningur á þeim hefur aukist um meira en 60 af hundraði það sem af er ári. Til að mynda hafa nær átjánþúsund nýir bílar verið skráðir af Umferðarstofu það sem af er ári en allt síðasta ár voru þeir tæplega fjórtánþúsund. Aldrei hafa fleiri fólksbílar verið fluttir inn til landsins á einu ári en gamla metið er síðan 1999 en þá voru fluttir inn tæplega 17 þúsund bílar. Viðskiptahallinn hefur verið óhagstæður nú í 21 mánuð í röð og stefnir sem fyrr segir í að slá öll met.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×