Viðskipti innlent

Endurgreiða sér kaupin á verslunarkeðjunni Iceland

Fjárfestar undir forystu Baugs leggja nú lokahönd á að greiða skammtímafjármögnun vegna kaupa á Iceland-keðjunni sem var hluti af kaupum á Big Food Group, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Landsbankinn fjármagnaði kaupin, en fjárfestarnir munu auk þess greiða sér til baka upphaflega fjárfestingu með vöxtum sem nemur 78 milljónum punda eða rúmum níu milljörðum. Algengt er að slíkur árangur náist á tveimur til þremur árum við skuldsettar yfirtökur af þessu tagi, en innan við ár er liðið frá því að kaupin gengu í gegn.

Baugur, Milestone og Pálmi Haraldsson stóðu að kaupum á Iceland og höfðu með sér stofnanda félagsins Malcolm Walker. Walker hafði verið gagnrýninn á þróun félagsins og hefur nú á innan við ári tekist að snúa rekstri þess í átt að fyrra formi, með þeim árangri að upphafleg fjárfesting verður nú endurgreidd.

Félagið verður nú fjármagnað í samræmi við eðlilegan rekstur. Fjárfestingabankar horfa stíft á hversu vel tekst í slíkum verkefnum og eru fjárfestar metnir eftir slíkum árangri.

Umfang þessara greiðslna er 160 milljónir punda, eða 18 milljarðar króna. Kaupin á Iceland voru talin þau áhættumestu í heildarkaupum fjárfesta á The Big Food Group, en viðsnúningur rekstursins hefur gengið betur en nokkurn óraði fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×