Viðskipti innlent

Ekki lokað á samruna kauphalla

Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar segir samruna við aðrar kauphallir í stöðugri skoðun.
Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar segir samruna við aðrar kauphallir í stöðugri skoðun. MYND/E.Ól.

Í síbreytilegu umhverfi og aðstæðum skoða menn stöðugt alla möguleika með tilliti til hvernig best sé að þróa kauphallir áfram, segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands. Fram kom um helgina gagnrýni Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns Kaupþings banka, á að ekki skyldi gengið til sameiningarviðræðna við OMX kauphöllina fyrir áramót.

Hann segir bankann skoða með opnum huga hvar hann væri skráður í kauphöll, þótt helst vildi hann vera í Kauphöll Íslands.

Þórður bendir á að í nóvember síðastliðnum hafi stjórn Kauphallarinnar verið samstíga í að hefja ekki samrunaviðræður við OMX. Að vísu var allan tímann vitað að fulltrúi KB banka, Ingólfur Helgason, var jákvæður gagnvart frekari skoðun á samruna, segir hann en bendir um leið á að í yfirlýsingu stjórnar komi skýrt fram að rök með því að halda óbreyttri starfsemi séu aðeins sterkari en fyrir samruna að svo stöddu. En þetta er ákvörðun sem getur fyrr en varir komið aftur á dagskrá stjórnarinnar. Við skoðum með opnum huga frá einum tíma til annars hvort hyggilegt sé að fara í slíkar samrunaviðræður.

Þórður segir Kauphöllina þó hafa ákveðið að sýna í verki skuldbindingu sína við norrænt kauphallarsamstarf og keypt lítinn hlut bæði í OMX og Kauphöllinni í Osló. Til að sýna þann áhuga og skuldbindingu sem við höfum gagnvart þessu samstarfi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×