Viðskipti innlent

Innlend áhætta er minnsti hlutinn

Ljóst er að starfsemi fjármálafyrirtækja hér stendur traustum fótum, segja Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og benda á að næmni lánveitinga fjármálakerfisins fyrir sveiflum í íslenska hagkerfinu minnki eftir því sem atvinnulífið verði alþjóðlegra.

Samtökin tóku saman greiningu á áhættu bankanna eftir því hvort lán þeirra tengdust fyrirtækjum með tekjur í innlendri eða erlendri mynt. Niðurstaðan sýnir að í hefðbundinni greiningu væri erlend starfsemi bankanna að meðaltali 35 til 74 prósent, eða 57 prósent að vegnu meðaltali. Þegar tekið er tillit til íslenskra fyrirtækja með starfsemi erlendis er áhætta íslenska bankakerfisins vegna erlendrar starfsemi hins vegar að meðaltali á bilinu 62 til 84 prósnent. Þannig nemur raunveruleg erlend áhætta að meðaltali fyrir bankakerfið í heild 73 prósentum og innlend áhætta því aðeins 27 prósentum, segja samtökin.

Skuldastöðu íslenska bankakerfisins ber því að meta í ljósi mikillar alþjóðlegrar starfsemi bankanna sjálfra sem og stærstu viðskiptavina þeirra, segja Samtök banka og verðbréfafyrirtækja og benda á að þjóðhagslegt gildi fjármálaþjónustu hafi aukist verulega síðustu ár, framlag til vergrar landsframleiðslu hafi aukist úr um fjórum prósentum árið 1998 í um átta prósent nú, sem sé jafnhátt framlagi sjávarútvegs til landsframleiðslu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×