Viðskipti innlent

Erlend verðbréf í 400 milljarða króna

Lífeyrissjóðir kaupa erlend verðbréf Hlutfall erlendra eigna er komið í 30 prósent af heildareignum.
Lífeyrissjóðir kaupa erlend verðbréf Hlutfall erlendra eigna er komið í 30 prósent af heildareignum.

Erlend verðbréfaeign íslensku lífeyrissjóðanna hefur stóraukist það sem af er ári eða um eitt hundrað milljarða frá áramótum. Um áramótin áttu sjóðirnir 297 milljarða í erlendum eignum en í lok mars fór erlend verðbréfaeign yfir fjögur hundruð milljarða króna í fyrsta skipti í sögunni. Þetta er 34,7 prósenta aukning.

Við lok sama tímabils árið 2005 áttu sjóðirnir 237 milljarða króna erlendis og hafa erlendu eignirnar því aukist um 69 prósent á einu ári.

Lífeyrissjóðir miða fjárfestingar sínar í útlöndum aðallega við hlutabréf; af þessum fjögur hundruð milljörðum lágu þrjú hundruð í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum.

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu í endaðan apríl um 1.345 milljörðum króna samkvæmt yfirliti frá Seðlabankanum en augljóst er að hlutfall erlendra eigna fer mjög vaxandi. Um áramótin var hlutfall erlendra eigna af heildareignum 24,6 prósent en í lok apríl var hlutfallið komið í tæp 30 prósent.

Aðstæður á erlendum hlutabréfamörkuðum voru hagstæðar á fyrstu mánuðum ársins auk þess sem veiking íslensku krónunnar jók verðmæti erlendra eigna í krónum talið. Gera má ráð fyrir að erlendar eignir haldi áfram að vaxa hlutfallslega en með réttri samsetningu verðbréfa getur helmingur eigna lífeyrissjóða verið erlendur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×