Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun mála í rannsóknar- og nýtingarleyfum til virkjana í vatnsafli og jarðvarma. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá flokknum sem blaðinu barst í gær.
Svandís Svavarsdóttir, sem skrifar undir yfirlýsinguna sem framkvæmdastjóri flokksins, segir að mönnum bregði í brún þegar stórfellt jarðrask sé hafið á viðkvæmum landsvæðum án þess að næg umræða hafi farið fram um áhrif rannsóknaborana. Hún segir flokkinn vilja að mat á umhverfisáhrifum hefjist fyrr en nú sé áskilið, þannig að allt ferlið verði matsskylt, líka rannsóknarstigið. Í Fréttablaðinu í gær var fjallað um rannsóknarboranir Landsvirkjunar í Suður-Þingeyjarsýslu.
Bjarni Pálsson, verkfræðingur Landsvirkjunar, segir jarðrask af völdum könnunarborana við Þeistareyki nánast ekkert og reynt sé eftir fremsta megni að afmá ummerki um rannsóknarboranir þegar svæðið sé yfirgefið.
Bjarni segir svæðið á Þeistareykjum ekki hafa verið matsskylt, en á boranasvæðinu við Kröflu hafi farið fram ítarlegt umhverfismat áður en rannsóknarboranir hófust.