Innlent

Sprungur á virkjanasvæðinu

Kárahnjúkasvæðið Sprungusvæðið er nær svæðinu en áður var talið.
Kárahnjúkasvæðið Sprungusvæðið er nær svæðinu en áður var talið. MYND/Vilhelm

 Sprungubeltið við Kárahnjúka liggur nær framkvæmdasvæðinu en áður var talið, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á framkvæmdasvæðinu. Fyrir framkvæmdirnar var það talið liggja tólf kílómetrum vestan við Kárahnjúkastíflu. Stíflan þolir jarðskjálfta upp á 6,2 á Richter-kvarða samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun, en ekki var talin ástæða til þess að bregðast sérstaklega við niðurstöðum rannsóknanna.

Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar vegna Kárahnjúkavirkjunar, segir niðurstöðurnar ekki hafa breytt framgangi framkvæmdanna á svæðinu. Kjarni málsins er sá að þessar nýju upplýsingar skiptu ekki sköpum um heildarmynd verkefnisins við Kárahnjúka. Ef þessar upplýsingar, sem fram hafa komið, hefðu komið fram fyrr, hefði það engu breytt um framgang verkefnisins. Grímur Björnsson, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í forðafræði jarðhita, segir niðurstöðu rannsóknarinnar sýna að sprungusvæðið á Kárahnjúkasvæðinu sé virkt. Hugmyndalíkanið af Íslandi, í jarðvísindalegu tilliti, hefur alltaf verið það að ef jarðhiti fyrirfinnist séu sprungur á því svæði virkar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að jarðhiti er á svæðinu þar sem framkvæmdirnar eru. Og það er grafalvarlegt mál.

Niðurstöður rannsóknarinnar, sem jarðfræðingarnir Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannesson unnu, áttu í fyrstu að vera lokaðar til ársins 2015 en voru fyrir skömmu gerðar opinberar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×