Innlent

Ógnandi framkoma lögreglu

Hrund Ólafsdóttir
Hrund Ólafsdóttir

„Mér var hótað handtöku, það voru teknar myndir af okkur í tjaldbúðunum við Snæfell, ég var krafin um að sýna ökuskírteini og það var skoðað inn í bílinn hjá mér,“ segir Hrund Ólafsdóttir sem var stödd í fjölskyldubúðum við Snæfell í grennd við virkjanasvæðið á Kárahnjúkum um síðustu helgi. „Mér er stórlega misboðið hvernig lögreglan kom þarna fram við venjulega borgara og erlenda gesti.“

Hrund segir að lögregla hafi viðhaft ógnandi framkomu við fólk sem var þarna statt til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og henni kom á óvart hversu margir þeir voru á svæðinu, en hún sá sjálf um það bil tíu lögregluþjóna.

„Við friðsama mótmælastöðu á landi í almenningseign kom lögregluþjónn til mín og hótaði mér handtöku ef ég færi lengra. Fólki er frjálst að vera þarna og því get ég ekki sætt mig við þessa hótun.“ Hrund segir að lögreglumenn í ómerktum bílum hafi tekið myndir af fólki og neitað að upplýsa tilganginn með því. Svo þegar Hrund var á leið burt af svæðinu var hún stöðvuð af lögreglu og krafin um ökuskírteini. „Á meðan gengu sex lögreglumenn kringum bílinn og voru að skoða inn um rúðurnar. Maður veltir fyrir sér hver það er sem borgar þessa löggæslu og hver ákveður að hafa svona marga menn á svæðinu. Mér finnst þessi framkoma lögreglunnar alveg með ólíkindum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×