Viðskipti innlent

Lokatilboð í Atlas

Magnús Þor­steinsson
Magnús Þor­steinsson

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group, segir að félagið muni leita á önnur mið fari svo að tilboði Avion í kanadíska kælifyrirtækið Atlas Cold Storage verði hafnað.

Við teljum að sjö kanadískir dalir á hlut sé sanngjarnt verð. Við kaupum einungis fyrir rétt verð og þetta er rétt verð að okkar mati, sagði Magnús í viðtali við kanadíska viðskiptablaðið Financial Post.

Tilboð Avion hljóðar upp á sjö kanadadali á hlut eða sem nemur rúmum 440 íslenskum krónum. Heildarvirði Atlas Cold Storage er samkvæmt því 37 milljarðar króna.

Bréf í Atlas Cold Storage hafa rokið upp í Kauphöllinni í Toronto í kjölfar frétta af væntanlegri yfirtöku Avion Group. Bréf í Atlas Cold Storage standa nú í 7,67 kanadadölum á hlut. Gríðarleg viðskipti hafa verið með bréf í félaginu.

Tilboð Avion hefur vakið mikla athygli í Kanada og var meðal annars flennistór mynd af Magnúsi á forsíðu viðskiptablaðsins Financial Post. Þá var rúmlega sex mínútna viðtal við Magnús í aðalfréttatíma viðskiptasjónvarpsstöðvarinnar Rob TV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×