Innlent

Reksturinn verður boðinn út

úr vatnsdal Meðal svæða sem verða boðin út eru Vatnsdalur, Öxnadalur, Steingrímsfjarðarheiði og Fagridalur.
úr vatnsdal Meðal svæða sem verða boðin út eru Vatnsdalur, Öxnadalur, Steingrímsfjarðarheiði og Fagridalur.

Ríkiskaup munu bjóða út rekstur á farsímakerfum á svokölluðum skuggasvæðum, svæðum þar sem farsímasamband er slæmt eða ekkert. Útboðin, sem verða að öllum líkindum tvö, eru hluti af því verkefni Fjarskiptasjóðs að bæta GSM-móttöku á svæðum þar sem ekki hefur verið talið standa undir kostnaði að halda úti GSM-þjónustu.

Meðal svæðanna sem eru boðin út að fyrstu eru Vatnsdalur, Bólstaðarhlíð, Öxnadalur, Steingrímsfjarðarheiði og Fagridalur. Það fyrirtæki sem vinnur útboðið hlýtur fjárstyrk frá Fjarskiptasjóði til að halda uppi þjónustu á þeim svæðum sem útboðið nær til.

"Við erum ekki að fara inn á nein svæði nema það sé sýnt að þjónusta byggist ekki upp á markaðsforsendum," segir Friðrik Már Baldursson, stjórnarformaður Fjarskiptasjóðs. "Við gerum ekki upp á milli fyrirtækja eða neitt slíkt, þjónustan er boðin út. Þetta er mjög svipað og þegar ríkið býður út til dæmis flugleið eða ferjuþjónustu á leiðum sem markaðurinn hefur ekki treyst sér til að standa undir."

"Núna stendur yfir forval, það er ekki búið að opna útboðið eða skila inn umsóknum," segir Pétur Pétursson, verkefnastjóri hjá Ríkiskaupum. "Þegar það gerist vitum við betur hverjir hafa sýnt verkefninu áhuga. Að öðru leyti eru útboðsgögnin í vinnslu, það er verið að mæla fyrir stöðum og vinna greiningarvinnu. Þarna er verið að óska eftir þjónustu á svæði sem er ekki sinnt í dag og ekki talið fýsilegt af hálfu fjarskiptafyrirtækja að sinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×