Jacques Chirac Frakklandsforseti lýsti því yfir í gær að 15.000 friðargæsluliðar væru allt of margir fyrir Suður-Líbanon, en verið er að setja saman þann her manna samkvæmt samþykkt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er 15.000 manna her Líbanons á svæðinu.
Óttast Chirac að svo margir hermenn og friðargæsluliðar gætu flækst hver fyrir öðrum á ekki stærra landssvæði en Suður-Líbanon er. Ég tel að talan sem sett var fram í byrjun umræðnanna um þetta, 15.000 í eflt lið UNIFIL, hafi verið nokkuð rífleg, sagði forsetinn.
Frakkar tilkynntu á fimmtudag að þeir myndu senda 2.000 hermenn í friðargæsluliðið, en áður höfðu þeir eingöngu lofað 400 mönnum.