Innlent

Tekjuafganginum vel varið

Landssíminn Um helmingur af tekjuafgangi ríkissjóðs er til kominn vegna sölu Landssímans.
Landssíminn Um helmingur af tekjuafgangi ríkissjóðs er til kominn vegna sölu Landssímans.

Þetta er náttúrulega stórkostleg afkoma sem kynnt var í gær [fimmudag] og ég sem fjármálaráðherra megnið af síðasta ári er mjög ánægður með þessa útkomu á mínu síðasta starfsári, sagði Geir H. Haarde forsætisráðherra um niðurstöðu ríkisreiknings fyrir árið 2005.

Afgangurinn af ríkisrekstrinum nam 113 milljörðum króna en helmingur fjárins fékkst við sölu Landssímans. Geir segir að engu að síður sé árangurinn góður. Auðvitað skýrist þetta að hluta til af sölu Landssímans, við vissum það vel, en burt séð frá því þá er þetta mjög góður árangur og fagnaðarefni að sjálfsögðu. Geir vill fátt láta uppi um líklega niðurstöðu þessa árs en vonast til að afkoman verði góð. Nú erum við að horfa fram á veginn en þó er auðvitað gott að hafa þessa peninga í húsi.

Sérfræðingar í fjármálum hafa hvatt til aðhalds í ríkisrekstrinum. Spurður hvort slíks aðhalds verði gætt á næsta ári, þegar kosið verður til þings, svarar Geir að tekjuafgangur undanfarinna ára hafi að mestu farið í greiðslu erlendra skulda og að styrkja stöðu Seðlabankans. Þessum fjármunum hefur verið mjög vel varið í þágu þjóðarinnar. Nú er verið að undirbúa fjárlög fyrir næsta ár og þau verða auðvitað lögð fram af fyllstu ábyrgð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×