Viðskipti innlent

Vöruskiptahallinn aldrei verið meiri

Vöruskiptahalli á fyrstu sjö mánuðum árs var 85,9 milljarðar króna. Greining Glitnis spáir að verulega dragi úr hallanum á næsta ári.
Vöruskiptahalli á fyrstu sjö mánuðum árs var 85,9 milljarðar króna. Greining Glitnis spáir að verulega dragi úr hallanum á næsta ári. MYND/GVA

Vöruskiptahalli var 19,1 milljarður króna í júlí og hefur ekki verið meiri frá því mælingar hófust, samkvæmt Hagstofu Íslands. Fluttar voru inn vörur fyrir 16,2 milljarða króna í mánuðinum og inn fyrir 35,2 milljarða. Tæplega tólf milljarða halli var á vöruskiptum í júlí 2005.

Fyrstu sjö mánuði ársins hafa verið fluttar út vörur fyrir 130,5 milljarða króna en inn fyrir 216,4 milljarða. Sjávarafurðir eru stærstur hluti útflutnings, alls 56,4 prósent. Mest er flutt inn af fjárfestingavöru en innflutningur bíla og flugvéla hefur dregist saman.

Vöruskipti eru því óhagstæð um 85,9 milljarða króna fyrstu sjö mánuði ársins. Vöruskiptahalli hefur tæplega tvöfaldast sé miðað við sama tímabil í fyrra.

Greining Glitnis segir í Þjóðhagsspá sinni að viðskiptahallinn hafi verið uggvænlega mikill undanfarið og bendir á að hann hafi verið 26 prósent landsframleiðslu á öðrum ársfjórðungi.

Sérfræðingar Glitnis telja að verulega dragi úr innflutningi á næsta ári þegar stóriðjuframkvæmdum lýkur og dregur úr einkaneyslu. Því er spáð að viðskiptahalli verði 6,8 prósent landsframleiðslu samanborið við 16,8 prósent í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×