Ungliði úr Þjóðarflokknum sænska, öðrum stærsta stjórnarandstöðuflokknum, gaf sig í gær fram og viðurkenndi að hafa notað stolið lykilorð til að brjótast inn á innri vef sænska Jafnaðarmannaflokksins. Talsmenn Þjóðarflokksins sögðu unga manninn hafa verið rekinn umsvifalaust og fullyrtu að upplýsingarnar sem hann hefði aflað sér með þessu móti hefðu ekki verið notaðar í kosningabaráttunni. Tólf dagar eru nú til þingkosninga í landinu og fylgi fylkinganna tveggja mælist nær hnífjafnt.
Málið kom upp eftir að fulltrúar Jafnaðarmannaflokksins lögðu inn kæru hjá lögreglu vegna meints innbrots í tölvukerfi þeirra, þar sem lesa mátti ýmsar trúnaðarupplýsingar um skipulag kosningabaráttu flokksins.
Þetta er í annað sinn á árinu sem tölvuþrjótar varpa skugga á sænsku kosningabaráttuna. Í febrúar viðurkenndi ungur starfsmaður Jafnaðarmannaflokksins að vera upphafsmaðurinn að nafnlausum tölvupóstskeytum með rógi um Fredrik Reinfeldt, leiðtoga Hægriflokksins og forsætisráðherraefni kosningabandalags borgaralegu flokkanna.