Viðskipti innlent

Styrktur til keppni við ófatlaða hlaupara

Styrktarsamningur handsalaður Oscar Pistorius, suðurafrískur hlaupari, og Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.Fréttablaðið/GVA
Styrktarsamningur handsalaður Oscar Pistorius, suðurafrískur hlaupari, og Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.Fréttablaðið/GVA
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, skrifaði í gær undir styrktarsamning við Oscar Pistorius, 19 ára gamlan heimsmethafa í 100, 200 og 400 metra hlaupi í sínum flokki. Oscar, sem er aflimaður fyrir neðan hné á báðum fótum, er hér á landi til að aðstoða við prófun hlaupafóta sem Össur sérsmíðar á hann.

Oscar stefnir á að keppa við ófatlaða hlaupara á Ólympíuleikunum í Kína, en til þess að það geti orðið að veruleika segist hann þurfa að bæta hlaupatíma sinn í 400 metra hlaupi um eina og hálfa sekúndu næstu tólf mánuði. „Það verður sjálfsagt rosaerfitt, en ég held að það sé vel mögulegt og þá ekki síst vegna þeirrar miklu aðstoðar sem ég nýt frá Össuri,“ segir hann. Besti tími Oscars í 400m hlaupi er 47,3 sekúndur en til að keppa meðal ófatlaðra þarf hann að ná að hlaupa 400 metrana á 45,5 til 45,8 sekúndum.

„Nái Oscar að keppa meðal ófatlaðra á Ólympíuleikunum árið 2008 yrði hann þar með fyrsti fatlaði íþróttamaðurinn til að ná slíkum árangri,“ segir Jón Sigurðs­son, forstjóri Össurar, og kveður fyrirtækið vera stolt af því að fá að hjálpa honum að ná þessu metnaðarfulla markmiði.

Auk þess að sérsmíða á Oscar hlaupafætur styrkir Össur hann með fjárframlagi út árið 2010. - óká





Fleiri fréttir

Sjá meira


×