Rannsókn á lífsstíl sjö til níu ára grunnskólabarna hefst í haust og stendur fram til 2008. Tilgangurinn er að kanna hvort fræðsla, aukin hreyfing og bætt mataræði hafi áhrif á líkamsástand og vellíðan barnanna.
Sex grunnskólar í Reykjavík taka þátt í rannsókninni. Í þremur þessara skóla verður kennurum, skólastjórnendum, öðrum starfsmönnum og foreldrum ráðlagt um næringu, hollustu og hreyfingu barnanna.
„Við ætlum að stuðla að breyttum kennsluháttum og koma á hreyfingu og fræðslu inn í daglega kennslu,“ segir Erlingur Jóhannsson, prófessor við Íþróttafræðasetrið á Laugarvatni.

Foreldrar barnanna fá fræðslu, til dæmis á vefsíðu rannsóknarinnar, og þannig getur rannsóknin haft áhrif á þá líka.
Börnin í hinum þremur skólunum verða samanburðarhópur. Í öllum skólunum verða börnin vegin og mæld í upphafi og við lok rannsóknarinnar og sést þá hvort lífsstílsbreytingin hefur haft áhrif á börnin í þeim skóla þar sem mataræði hefur breyst og hreyfing aukist.